Miklu illviðri er spáð á morgun og mánudag og alls ekkert ferðaveður. Talið er að veðrið muni ná hámarki suðvestanlands um klukkan níu annað kvöld en á Vestfjörðum og Norðurlandi nær miðnætti.
Þetta segir í uppfærðri spá Veðurstofu Íslands. Í frétt á vef VÍS er fólk hvatt til þess að búa sig undir hið versta með því að setja lausa muni inn, binda þá niður, fergja eða koma í skjól. Niðurföll þurfi að vera hrein, húsbílum og þess háttar komið í var og fólk eigi ekki að vera á ferðinni.
Í samtali við VÍS segir Einar Sveinbjörnsson hjá Veðurvaktinni að ef veðrið verði eins slæmt og spár gefa til kynna gæti það orðið svipað og í alræmdu illviðri í febrúar 1991 sem olli miklu eignatjóni.
Á mánudagsmorgni er gert ráð fyrir suðvestan stormi en hvössum vindi síðdegis. Áfram mun kólna í veðri og má búast við hitastigi um eða undir frostmarki.
