KR tekur á móti Haukum í DHL-höllinni í kvöld í lokaleik sjöundu umferðar Dominos-deildar karla í körfubolta en leikurinn verður sýndur beint á Stöð 2 Sport og hefst útsendingin klukkan 19.00.
Deildarleikir KR og Hauka á síðasta tímabili voru langt frá því að vera jafnir. KR vann fyrri leikinn í DHL-höllinni með 29 stiga mun (96-67) og þann seinni með tólf stigum (86-74) eftir að hafa komist mest 27 stigum yfir.
Þegar tölfræði leikjanna er skoðuð nánar kemur í ljós að Haukar voru ekki yfir í eina einustu sekúndum í þessum tveimur leikjum en KR-ingar voru aftur á móti með forystuna í 77 mínútur og 56 sekúndur.
KR-liðið komst strax í 3-0 og 9-2 í leiknum í DHL-höllinni og staðan var 7-2 eftir tæpar tvær mínútur í seinni leiknum á Ásvöllum. Haukaliðið náði aldrei að vinna upp þetta forskot KR-liðsins
KR-ingar hafa unnið sex fyrstu leiki sína í Dominos-deildinni í ár og þau gerast því varla erfiðari verkefnin fyrir Haukana en heimsókn þeirra í Frostaskjólið í kvöld. Fyrsta skrefið í átt að sigri er að komast yfir á móti KR í fyrsta sinn í mörg ár en Haukar léku ekki í úrvalsdeildinni tímabilið 2012-13.
Leikir KR og Hauka í Dominos-deildinni í fyrra:
KR-ingar yfir: 77 mínútur og 56 sekúndur
Jafnt: 2 mínútur og 4 sekúndur
Haukar yfir: 0 mínútur og 0 sekúndur
Körfubolti