Innlent

„Lífshættulegt að vera á ferðinni á Suðurlandi“

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Viðar Arason
Viðar Arason vísir/magnús hlynur
„Fólk á alls ekki að vera úti á Suðurlandi, það er lífshættulegt, fólk verður að taka mark á þessu, veðrið er gjörsamlega snarvitlaust“, segir Viðar Arason, stjórnandi aðgerða hjá Svæðisstjórn björgunarsveitanna á svæði 3 á Suðurlandi með aðsetur á Selfossi.

Hann segir að ástandið sé verst í Þorlákshöfn, Eyrarbakka og á Stokkseyri, þar séu þök að fjúka af húsum og þakplötur út um allt. Í Þorlákshöfn sé steinull að fjúka  um allar götur, auk þakplatna.

„Það eru líka þakplötur að fjúka innanbæjar á Selfossi og við höfum fengið nokkur útköll frá Uppsveitum Árnessýslu þar sem veðrið er mjög slæmt“, segir Viðar. Um 70 björgunarsveitarmenn eru nú að störfum í Árnessýslu og á Viðar von á þeim munu fjölga enn frekar þegar líður á kvöldið.

„Nú þegar eru komin 20 verkefni frá kvöldmat og síminn stoppar ekki hjá okkur, fólk er víða að biðja um aðstoð“, segir Viðar, sem hafði ekki tíma lengur til að tala við blaðamann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×