Innlent

Þurftu að aðstoða hóp leikskólabarna í leikskólann

Stefán Árni Pálsson skrifar
Á höfuðborgarsvæðinu hefur veður farið versnandi eftir því sem líður á daginn og eru þar nokkrir hópar björgunarfólks úti.
Á höfuðborgarsvæðinu hefur veður farið versnandi eftir því sem líður á daginn og eru þar nokkrir hópar björgunarfólks úti. vísir/vilhelm
Á annað hundrað björgunarmenn sinna nú ófærðaraðstoð á suðvesturhorni landsins. Flest verkefnin eru á Suðurnesjum þar sem mikið er af föstum bílum og bílum sem ekið hefur verið út af vegum. Búið er að loka Reykjanesbrautinni og verið er að koma ökumönnum til aðstoðar þar.

Helliheiði er einnig lokuð, sem og Þrengslin. Þar aðstoða björgunarsveitir ökumenn sem fest hafa bíla sína, manna lokunarpósta og sjúkrabíl var fylgt frá Selfossi um Þrengsli, til Reykjavíkur.

Á höfuðborgarsvæðinu hefur veður farið versnandi eftir því sem líður á daginn og eru þar nokkrir hópar björgunarfólks úti. Tilkynnt var um þak sem var fjúka af garðskúr, sveitir aðstoða ökumenn við Litlu Kaffistofuna og á Reykjanesbrautinni, manna lokanir og verið er að flytja hóp leikskólabarna úr Guðríðarkirkju í Grafarholti í leikskólann sinn.

Sveitin í Vestmannaeyjum hefur einnig verið kölluð út vegna bíls sem fastur var utanvegar og Grundfirðingar eru á leið í Kirkjufellsbrekku þar sem er mikil ófærð.

Á Jökuldal var Björgunarsveitin Jökull kölluð út til að negla niður lausar þakplötur sem sem voru að fjúka í Húsey.

Slysavarnafélagið Landsbjörg hvetur fólk til að vera á ferðinni nema brýna nauðsyn beri til og þá aðeins að á bifreiðum sem eru vel búnar til aksturs í vetraraðstæðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×