Karla- og kvennalið Fjölnis eru bæði að leita sér að nýjum bandarískum leikmönnum í körfuboltanum eftir að samningum við þau Daron Lee Sims og Mone Laretta Peoples var sagt upp.
Daron Lee Sims og Mone Laretta Peoples eru par og þau voru bæði hjá Fjölni á síðasta tímabili þegar karlalioðið tryggði sér sæti í úrvalsdeildinni og kvennaliðið tapaði í oddaleik um sæti í úrvalsdeild kvenna.
„Við ákváðum að gera breytingar og ástæðan er sú að við vorum ekki að fá það framlag sem við vildum þá sérstaklega varnarlega. Daron og Mone eru par og við gerðum samning við hann á þeim forsendum og því fara þau bæði," sagði Hjalti Þór Vilhjálmsson, þjálfari karlaliðs Fjölnis í samtali við karfan.is þar sem að hann staðfesti brottrekstur parsins.
Daron Lee Sims var með 20,3 stig og 9,5 fráköst að meðaltali í leik í tíu leikjum Fjölnis í Dominos-deild karla en meðaltölin voru dottin niður í 16,5 stig og 7,0 fráköst í desember-mánuði. Fjölnis vann aðeins 2 af 10 leikjum sínum með Sims.
Mone Laretta Peoples var með 27,0 stig, 6,5 fráköst og 5,5 stoðsendingar í 2 leikjum með Fjölni en hún hefur glímt við meiðsli í upphafi tímabilsins.
Hvort Fjölnismenn finni nýtt „par" verður að koma í ljós en nýir bandarískir leikmenn eru væntanlega á leiðinni til félagsins eftir áramót.
Körfubolti