Huldumaðurinn sem þarna var á ferðinni er í raun Albert Ómar Guðbrandsson, umsjónarmaður fasteigna, sem sér meðal annars um turninn við Höfðatorg. Albert var hógværðin uppmáluð þegar blaðamaður hafði samband við hann og fannst það sjálfsagt mál að bjarga fólki sem var í erfiðleikum vegna mikils vinds.
„Við reynum yfirleitt að hjálpa fólki sem lendir í vandræðum," segir hann í samtali við Vísi. Annars vildi Albert gera sem minnst úr þessu. „Það getur orðið ansi vindasamt þarna. Fólk var reyndar beðið um að vera ekki á ferðinni og sú viðvörun var ekkert gefin út af ástæðulausu."
Fékk viðurnefnið Höfðatorgshetjan fyrir tveimur árum
Á meðfylgjandi myndbandi má sjá Albert á Cherokee-jeppa koma fólki til bjargar sem getur lítið komist úr spori vegna hálku og vinds á svæðinu. Myndbandið tók Vilhelm Gauti Bergsveinsson sem getið hefur sér gott orðspor í gegnum árin fyrir framgöngu sína á handboltavellinum.
Vísir birti í dag myndband af ferðamönnum sem lentu í vandræðum á svipuðum slóðum. Ari Sigurðsson og félagi hans reyndu að koma þeim til bjargar sem lauk með því að allir fuku niður í hinn margfræga bílakjallara við Höfðatorg.
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Albert bjargar fólki við erfiðar aðstæður á Höfðatorgi. Þá fékk hann viðurnefnið Höfðatorgshetjan. Hér að neðan má sjá myndband frá árinu 2012 þegar hann kom fólki í skjól frá miklum vindi.
Í samtali við Vísi sagði Albert þá: „Ástandið er bara búið að vera mjög slæmt, eins og veðrið. Það er allt í lagi inni en fyrir utan er þetta slæmt. Menn halda áfram að berjast í vindinum, jafnvel þó þeir komist ekki neitt - og jafnvel þó það sé búið að vara fólk við en við Íslendingar erum bara svona. Ég get ekki horft upp á fólk slasa sig."