Vince Carter, sem er að verða 38 ára gamall í janúar, spilar nú með liði Memphis Grizzlies, og hefur verið að standa sig ágætlega í síðustu leikjum eftir annars rólega byrjun.
Carter skoraði 12 stig á móti Utah í nótt en það var karfa hans í fjórða leikhlutanum sem vakti mesta hrifningu manna og enn á ný rataði kappinn inn í tilþrifapakka kvöldsins.
Carter fékk boltann í hraðri sókn, keyrði upp að körfunni og tróð af krafti yfir hinn 216 sm Rudy Gobert sem er fimmtán árum yngri en hann.
Vince Carter hóf NBA-feril sinn hjá Toronto Raptors árið 1998 og var fastagestur í öllum tilþrifapökkum frá deildinni. Hann fékk gælunefni eins og "Vinsanity" "Air Canada" og "Half-Man, Half-Amazing".
Bandarískir fjölmiðlar voru að rifja upp "Vinsanity" gælunafnið eftir troðslu næturinnar en hana má sjá hér í myndbandinu fyrir ofan.
Þetta er sautjánda tímabil Vince Carter í NBA-deildinni en hann hefur alls troðið 685 sinnum í leik í NBA-deildinni. Troðslan í nótt var þó bara önnur troðsla hans á þessu tímabili.