Lagið eftir Josefin heitir Silent Storm og lenti í fimmtán laga úrslitum í undankeppni Eurovision í Noregi. Carl Espen syngur lagið. „Carl er frændi Josefin. Hann hefur algjöra englarödd, þessi drengur,“ segir Íris. Hún hefur mikla trú á því að Josefin gangi vel í keppninni. „Formaður Eurovision-klúbbsins í Noregi heldur með þessu lagi, samkvæmt frétt í Aftenposten.“
Íris leggur áherslu á að hún sé bara áhugahönnuður og máli einungis í frítíma sínum. „Ég hafði aldrei hannað neitt á ævi minni þegar ég hannaði umslagið, þannig að ég fór á námskeið í InDesign og Photoshop hjá Myndlistarskóla Reykjavíkur til að læra það. Svo lá ég á YouTube og horfði á myndbönd sem hétu „How to Make a CD Cover.“ Ég var ánægð með afraksturinn. Ég notaði myndina sem ég málaði af Josefin sem fyrirmynd að umslaginu, með nýjum bakgrunni.“

John Grant og Josefin náðu vel saman að sögn Írisar. „Hann fékk hana til að hita upp fyrir sig á þrennum tónleikum í London með þúsundum áhorfenda, sem hefur hjálpað til við að koma henni á framfæri í London,“ segir Íris.
Nú býr Josefin í London, en John Grant er fluttur í kjallaraíbúð frænku Írisar. „Það má segja að þessi íbúð hafi spilað svolitla rullu í íslensku tónlistarlífi, því bæði Josefin og John Grant hafa tekið upp tónlist í þessum kjallara,“ segir Íris.