Skoðun

Eignarnám hér en ekki þar

Ögmundur Jónasson skrifar
Það var engan bilbug að finna á Ragnheiði Elínu Árnadóttur iðnaðarráðherra þegar hún mætti í sjónvarpsþátt á dögunum til að réttlæta eignarnám á landi undir rafmagnslínu á Suðurnesjum.

Hún tók það sérstaklega fram að þótt eigendur færu í mál myndi það ekki „fresta réttaráhrifum“, sem á mannamáli þýðir að hvað sem öllum málaferlum líður þá verði farið í framkvæmdir. Þáttarstjórnandinn sagði að ekki væri að sjá að framkvæmdin væri svo aðkallandi að rjúka yrði í hana með forgangshraði.

En Ragnheiður Elín sat líka fyrir svörum í umræddum þætti sem ferðamálaráðherra. Þar var hún ekki eins viss í sinni sök gagnvart eignarréttinum. Hún talaði þar fyrir því baráttumáli ríkisstjórnarinnar að ríkið rukki okkur fyrir að fara á Þingvöll og skoða náttúruperlur Íslands. Um þetta verði að vísu að nást „víðtæk sátt“ og er svo að skilja að þar sé einkum átt við hagsmunaaðila í ferðaiðnaði og landeigendur. Almenningur kemur þarna lítið við sögu og hvergi er minnst á eignarnám í þessu samhengi.

Það er þó þarna sem eignarnám væri fullkomlega réttlætanlegt að mínu áliti, þ.e. gagnvart þeim aðilum sem í krafti einkaeignarréttar ætla, í trássi við lög, að græða á náttúruperlum Íslands. Þetta er eins yfirgengilegt og verða má. Í fréttum heyrðist einn talsmanna landeigenda líkja almenningi við börn sem hefðu fengið sleikibrjóstsykur ókeypis um hríð en þyrftu nú að borga fyrir hann.

Einhvers staðar var bent á að sú hætta væri raunveruleg að með andvaraleysi og meðvirkni stjórnvalda væri að myndast hér eins konar kvótakerfi þar sem ekki bara eigendur að landi færu að umgangast náttúruperlur sem eign sína, heldur tæki fjármálakerfið undir með því að heimila veðsetningu á nýtingu „eigna“ af þessu tagi inn í framtíðina. Þar með myndaðist tilkall til tekna af náttúruperlum sem enginn bókstafur er þó fyrir í lögum.

Hér hræða sporin úr sjávarútveginum.

Einni spurningu vildi ég heyra ferðamálaráðherrann og iðnaðarráðherrann svara úr einum og sama munninum: Hvort ekki væri ráð að snúa forgangsröðinni við, sýna landeigendum á Suðurnesjum ögn meiri biðlund en draga úr undirgefni við þá aðila sem eru að fjárnýta náttúruperlur Íslands í eiginhagsmunaskyni undir því falska yfirskini að vera sérstakir varðstöðumenn náttúru Íslands.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×