Tónlist

Fagna tíu ára afmælinu í hljóðveri

Gunnar Leó Pálsson skrifar
Sigurður Guðmundsson fékk rafstuð í fingur í upptökunum en Hjálmar vinna nú hörðum höndum í hljóðveri.
Sigurður Guðmundsson fékk rafstuð í fingur í upptökunum en Hjálmar vinna nú hörðum höndum í hljóðveri. Vísir/Guðm. Kristinn Jónsson
„Við erum að vinna í tveimur lögum eins og er. Í þeim erum við á frekar þekktu svæði og erum ekki að experímentera jafn mikið og á síðustu plötu,“ segir Guðmundur Kristinn Jónsson, gítarleikari Hjálma, en sveitin vinnur þessa dagana í hljóðveri við að taka upp tvö ný lög. Sveitin hefur þó sem stendur eingöngu í hyggju að taka upp þessi tvö lög í bili.

„Við eigum eftir að ákveða framhaldið. Fyrra lagið kemur út á næstu dögum og seinna lagið kemur út 1. júlí en það er hinn alþjóðlegi reggídagur,“ bætir Guðmundur Kristinn við. Síðasta plata Hjálma, Órar, kom út árið 2011.

Liðsskipan sveitarinnar hefur þó breyst í gegnum tíðina. „Í grunninn er þetta ég, Siggi og Steini. Helgi Svavar trommari og Valdi Kolli bassaleikari eru með okkur núna.“ Þess má til gamans geta að Guðmundur Kristinn, Þorsteinn Einarsson, söngvari og gítarleikari Hjálma, og Helgi Svavar eru allir að spila með Ásgeiri Trausta.

Þorsteinn og Helgi í hljóðverinu
Sigurður Guðmundsson, hljómborðsleikari og söngvari sveitarinnar, sem hefur verið búsettur í Ósló undanfarið ár, fékk stuð í löngutöng meðan á upptökum stóð og náðist atvikið því á hljóðupptöku og er hún komin á YouTube.

„Þetta var mikið stuð en svona er þó orðið sjaldgæft. Ég lít lífið öðrum augum eftir þessa stórfenglegu upplifun,“ segir Sigurður spurður út í stuðið. Hann segir jafnframt að norskan Óslóarkeim megi finna í nýju lögunum ef vel er gáð. „Óslóartréð lætur í sér heyra.“

Plötur Hjálma í gegnum tíðina:

Hljóðlega af stað- 2004

Hjálmar- 2005

Ferðasót- 2007

IV- 2009

Keflavík Kingston - 2010

Órar- 2011






Fleiri fréttir

Sjá meira


×