Hann heldur tónleika inni í listaverkinu Your Rainbow Panorama eftir Ólaf Elíasson á þaki listasafnsins ARoS í Árósum í Danmörku þann 30. ágúst næstkomandi. Listaverkið er hringlaga og í litum regnbogans og verða Ásgeir og tónleikagestir inni í hringnum á meðan á tónleikunum stendur. Tónleikarnir eru liður í samstarfsverkefni ARoS og tónleikastaðarins Train sem heitir Beyond Borders. Tónleikarnir verða því í nokkurri hæð en það hræðir Ásgeir ekki.
„Ég hef ekki verið lofthræddur hingað til. Þetta er ekki svo hátt þannig að ég held að það verði ekkert vandamál.“
Ásgeir er staddur í Bandaríkjunum á tónleikaferðalagi en á miðvikudag spilaði hann í hinu goðsagnakennda Electric Lady-hljóðveri í New York sem var byggt af tónlistarsnillingnum Jimi Hendrix og hannað af John Storyk árið 1970. Fjölmargir listamenn hafa leikið lög sín í hljóðverinu og má þar helst nefna Bob Dylan, John Lennon, Kiss, John Mayer og AC/DC.

Í dag spilar Ásgeir í Boston og snýr síðan heim til Íslands í stutt frí.
„Við erum allir orðnir frekar þreyttir, aðallega út af síðustu vikunni hér í Bandaríkjunum. Hér er rosalegur hiti og þungt loft og við erum nánast búnir að vera með innilokunarkennd allan daginn. Það eru allir frekar ánægðir með að fara heim. Þegar heim er komið ætla ég að reyna að vinna eins og ég get og síðan liggur leiðin til Ástralíu og Japans í enda júlí,“ segir Ásgeir.
Þá er annar stór túr um Bandaríkin á planinu í haust sem og nýtt myndband við lagið Leyndarmál á ensku sem verður frumsýnt innan skamms.