Manni á fertugsaldri var haldið í bifreið handrukkara í rúma klukkustund aðfaranótt sunnudags. Að sögn lögreglu var um innheimtuaðgerðir að ræða.
Mennirnir sem höfðu þann fyrrnefnda í haldi voru þrír talsins og allir rúmlega þrítugir. Frelsissviptingin hófst eftir að slagsmál brutust út á meðal mannanna í Grímsbæ. Réðust mennirnir síðan að fórnarlambinu og tóku hann inn í bíl sinn. Var ekið með hann í um klukkustund og honum síðan hent út á Reykjavíkurvegi í Hafnarfirði. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu var hann lemstraður á höfði en ekki lífshættulega slasaður. Hann var fluttur á slysadeild með sjúkrabíl.
Maðurinn tilkynnti sjálfur um árásina og gat gefið lögreglu upplýsingar um skráningarnúmer bílsins. Lögregla átti því auðvelt með að hafa uppi á bílnum og voru mennirnir þrír handteknir og látnir gista fangageymslur.
Málið er í rannsókn. Yfirheyrslur hófust yfir þremenningunum í gær og verða þeir látnir lausir að þeim loknum nema fleira komi upp úr dúrnum. Þá verður mögulega krafist gæsluvarðhalds yfir þeim.
Fangageymslur á Hverfisgötu voru fullar þessa nótt og mikill erill hjá lögreglu.
Klukkustund í greipum handrukkara
Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
