Öfgarnar næra ófriðinn Ólafur Þ. Stephensen skrifar 17. júlí 2014 07:00 Enn einu sinni hefur ófriður blossað upp á milli Ísraela og Palestínumanna. Enn eina ferðina ofbýður fólki um allan heim framganga Ísraela, sem hafa yfirhöndina í krafti yfirgnæfandi hernaðarmáttar og hafa fellt tugi óbreyttra borgara í árásum sínum á Hamas-hreyfinguna, þar á meðal fjölda kvenna og barna. Það er sjálfsögð krafa að Ísraelsher hætti þegar í stað árásum á Gaza-svæðið, fari að alþjóðalögum og hætti mannréttindabrotum gagnvart Palestínumönnum. Það er jafnsjálfsögð krafa að Hamas-liðar hætti árásum sínum á Ísrael. Það er ekki þeim að þakka að aðeins einn Ísraelsmaður hefur fallið, á móti meira en tvö hundruð Palestínumönnum. Eldflaugar þeirra eru lélegar og varnir Ísraelsmanna góðar. Almennir borgarar í Ísrael eiga hins vegar að sjálfsögðu ekki að þurfa að búa við ógn af loftárásum frekar en íbúar nokkurs annars lands. Ísraelar voru reiðubúnir að fallast á tillögu Egypta um vopnahlé, en Hamas-liðar ekki. Þeir síðarnefndu hafa meðal annars gert að skilyrði að Ísraelar leyfi frjálsa flutninga fólks og varnings um landamæri Gaza-svæðisins og aflétti hafnbanni. Það er líka sanngjörn krafa, því að herkví Ísraela um Gaza hefur aukið mjög á fátækt og neyð palestínsks almennings. Hins vegar er þetta ekki einfalt mál frekar en neitt annað í deilum Ísraela og Palestínumanna. Flutningabanninu var komið á til að reyna að hindra vopnasmygl Hamas og annarra samtaka Palestínumanna inn á svæðið. Nú segja harðlínumenn í Ísrael ýmist að greinilega hafi bannið ekki skilað sínu og það þurfi enn að herða það, eða að það hafi að minnsta kosti borið þann árangur að Hamas-liðar skjóti aðallega lélegum heimasmíðuðum eldflaugum á Ísrael og því sé sjálfsagt að viðhalda því. Jafnvel hófsamari öfl í Ísrael trúa því ekki að Hamas noti ekki tækifærið til að efla getu sína til árása á ísraelska borgara. Leiðtogar Hamas ættu að vita að sjálfstætt Palestínuríki verður aldrei til með vopnavaldi, til þess eru hernaðarlegir yfirburðir Ísraels of miklir. Það eru hins vegar enn of margir í þeim herbúðum sem líta á eyðingu Ísraelsríkis sem markmið sitt. Ísraelsmegin er líka nóg af öfgamönnum, sem taka árásum Hamas-liða í raun fagnandi og líta á þær sem afsökun til að ráðast á þá, veikja andspyrnumátt Palestínumanna og sundra þeim enn frekar. Benjamin Netanyahu forsætisráðherra tekur fegins hendi tækifærinu til að nota ófriðinn á Gaza sem afsökun fyrir að halda áfram landtöku á Vesturbakkanum og grafa enn frekar undan möguleikunum á að mynda heildstætt palestínskt ríki. Lausn á átökunum fyrir botni Miðjarðarhafs næst ekki nema báðir slái af kröfum sínum og sýni raunverulegan vilja til að tvö ríki verði til, sem hvort um sig getur notið friðar og öryggis. Því miður vantar enn verulega upp á þann vilja, bæði hjá Ísraelum og Palestínumönnum. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Gasa Ólafur Stephensen Mest lesið Þjóðarátak í umönnun eldra fólks Einar Magnússon ,Þráinn Þorvaldsson Skoðun Sagan að endurtaka sig í beinni Ingibjörg Þóra Haraldsdóttir Skoðun Hin heimtufreka kennarastétt Áslaug Pálsdóttir Ragnheiðardóttir Skoðun Þingmaðurinn og spillingin á Veðurstofunni Sigurgeir Bárðarson Skoðun Svar til lögmanns SFS Magnús Guðmundsson Skoðun Hefur sala á rafbílum hrunið? Jón Ásgeir Haukdal Þorvaldsson Skoðun Að hengja bakara fyrir smið Rakel Linda Kristjánsdóttir Skoðun Halldór 25.01.2025 Halldór Ég get horft í augun á ykkur og sagt Kristófer Már Maronsson Skoðun Hinn vandrataði vegur að starfslokum Ástríður Þórey Jónsdóttir Skoðun
Enn einu sinni hefur ófriður blossað upp á milli Ísraela og Palestínumanna. Enn eina ferðina ofbýður fólki um allan heim framganga Ísraela, sem hafa yfirhöndina í krafti yfirgnæfandi hernaðarmáttar og hafa fellt tugi óbreyttra borgara í árásum sínum á Hamas-hreyfinguna, þar á meðal fjölda kvenna og barna. Það er sjálfsögð krafa að Ísraelsher hætti þegar í stað árásum á Gaza-svæðið, fari að alþjóðalögum og hætti mannréttindabrotum gagnvart Palestínumönnum. Það er jafnsjálfsögð krafa að Hamas-liðar hætti árásum sínum á Ísrael. Það er ekki þeim að þakka að aðeins einn Ísraelsmaður hefur fallið, á móti meira en tvö hundruð Palestínumönnum. Eldflaugar þeirra eru lélegar og varnir Ísraelsmanna góðar. Almennir borgarar í Ísrael eiga hins vegar að sjálfsögðu ekki að þurfa að búa við ógn af loftárásum frekar en íbúar nokkurs annars lands. Ísraelar voru reiðubúnir að fallast á tillögu Egypta um vopnahlé, en Hamas-liðar ekki. Þeir síðarnefndu hafa meðal annars gert að skilyrði að Ísraelar leyfi frjálsa flutninga fólks og varnings um landamæri Gaza-svæðisins og aflétti hafnbanni. Það er líka sanngjörn krafa, því að herkví Ísraela um Gaza hefur aukið mjög á fátækt og neyð palestínsks almennings. Hins vegar er þetta ekki einfalt mál frekar en neitt annað í deilum Ísraela og Palestínumanna. Flutningabanninu var komið á til að reyna að hindra vopnasmygl Hamas og annarra samtaka Palestínumanna inn á svæðið. Nú segja harðlínumenn í Ísrael ýmist að greinilega hafi bannið ekki skilað sínu og það þurfi enn að herða það, eða að það hafi að minnsta kosti borið þann árangur að Hamas-liðar skjóti aðallega lélegum heimasmíðuðum eldflaugum á Ísrael og því sé sjálfsagt að viðhalda því. Jafnvel hófsamari öfl í Ísrael trúa því ekki að Hamas noti ekki tækifærið til að efla getu sína til árása á ísraelska borgara. Leiðtogar Hamas ættu að vita að sjálfstætt Palestínuríki verður aldrei til með vopnavaldi, til þess eru hernaðarlegir yfirburðir Ísraels of miklir. Það eru hins vegar enn of margir í þeim herbúðum sem líta á eyðingu Ísraelsríkis sem markmið sitt. Ísraelsmegin er líka nóg af öfgamönnum, sem taka árásum Hamas-liða í raun fagnandi og líta á þær sem afsökun til að ráðast á þá, veikja andspyrnumátt Palestínumanna og sundra þeim enn frekar. Benjamin Netanyahu forsætisráðherra tekur fegins hendi tækifærinu til að nota ófriðinn á Gaza sem afsökun fyrir að halda áfram landtöku á Vesturbakkanum og grafa enn frekar undan möguleikunum á að mynda heildstætt palestínskt ríki. Lausn á átökunum fyrir botni Miðjarðarhafs næst ekki nema báðir slái af kröfum sínum og sýni raunverulegan vilja til að tvö ríki verði til, sem hvort um sig getur notið friðar og öryggis. Því miður vantar enn verulega upp á þann vilja, bæði hjá Ísraelum og Palestínumönnum.