Á blaðamannafundi vegna atburðanna, sem Barack Obama Bandaríkjaforseti hélt í Hvíta húsinu í Bandaríkjunum síðdegis í gær, áréttaði hann nauðsyn þess að koma á vopnahléi í landinu. Hann sagði Vladimír Pútín Rússlandsforseta mest vald hafa á þróun átakanna í Úkraínu.
„Ég verð á næstu stundum og dögum í sambandi við leiðtoga heims um hvernig best sé að bregðast við þessum harmleik,“ sagði Obama. „Við ætlum að sjá til þess að sannleikurinn komi fram.“
Um leið kom fram í máli forsetan að auknar vísbendingar væru um að eldflaugaárásin á þotuna hefði komið frá svæði undir stjórn aðskilnaðarsinna í austanverðri Úkraínu. Aðskilnaðarsinna sem notið hefðu stuðnings Rússa.
„Og Rússland hefur neitað að taka þau skref sem nauðsynleg eru til þess að friður og öryggi komist á ný á í Úkraínu,“ sagði Obama sem kvaðst hafa rætt við Pútín Rússlandsforseta deginum áður og meðal annars rætt refsiaðgerðir á hendur Rússlandi á meðan ekki yrðu tekin raunhæf skref til að koma á friði.

Á fundi Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna í gær vógu sendiherrar Bretlands og Bandaríkjanna líka hart að Rússum og sökuðu þá um að kynda undir átökum í Úkraínu. Líkt og Bandaríkjaforseti í ræðu sinni fóru sendiherrarnir yfir hvernig aðskilnaðarsinnum hefði tekist að skjóta niður flugvélar frá úkraínska hernum á síðustu dögum.
„Rússland getur endað þetta stríð. Rússland verður að binda enda á þetta stríð,“ sagði Samantha Power, sendiherra Bandaríkjanna, á fundi öryggisráðsins.
Hún sagði líka að Bandaríkin hefðu ekki vitneskju um að Úkraínuher hefði búnað á svæðinu, sem hægt væri að nota til að skjóta niður flugvélina. Hún sagði jafnframt ólíklegt að aðskilnaðarsinnar hefðu getað beitt slíku tæki án tæknilegrar hjálpar frá Rússum.
Mark Lyall, sendiherra Bretlands, sagði að öryggisráðið yrði að gera meira en að gefa út tilkynningu. Krefjast þyrfti þess að vopn yrðu lögð niður.

„Það verður að koma á friði í Úkraínu eins fljótt og auðið er,“ sagði hann og kvaðst hafa miklar áhyggjur af atburðunum í Úkraínu. „Þetta er skelfilegt. Þetta er harmleikur,“ segir í frétt RTE.
Angela Merkel Þýskalandskanslari sagði að rússnesk stjórnvöld yrðu að leggja sitt af mörkum til að flýta friðarferlinu í Úkraínu. Kvað hún vopnahlé nauðsynlegt til að hægt væri að rannsaka árásina á vél Malaysia Airlines.

Þá sagði Maerk Rutte, forsætisráðherra Hollands, í gær að árásin á farþegaþotuna væri mesta hörmung flugsögunnar sem dunið hefði yfir hollensku þjóðina.
Flestir þeirra sem fórust með flugvélinni voru Hollendingar, eða 154.
Hann sagði hollensk stjórnvöld krefjast nákvæmrar rannsóknar á hrapi flugvélarinnar og ef í ljós kæmi að um vísvitandi verknað væri að ræða yrði að draga þá til ábyrgðar sem staðið hefðu að verknaðinum.
Enn hefur þó enginn gengist við því að hafa skotið á malasísku þotuna.
Arseníj Jatsenjúk, forsætisráðherra Úkraínu, fullyrti hins vegar á blaðamannafundi í gærmorgun að rússneskir hryðjuverkamenn bæru ábyrgð á verknaðinum.
Hann hvatti ríkisstjórnir allra landa sem málið snerti til að vinna með Úkraínumönnum í „að koma þeim drullusokkum sem sem frömdu þennan glæp fyrir dóm“.
Um væri að ræða glæp gegn mannkyninu og með honum hefði verið „farið yfir öll strik“. Rússar vísa hins vegar allri ábyrgð á hendur Úkraínumönnum sem hefðu með nýjustu árásum sínum í austurhluta landsins æst upp átök á svæðinu.
Hljóðupptökur vekja grun
Leyniþjónustan í Úkraínu hefur birt hljóðupptökur af tveimur símtölum, annars vegar á milli leiðtoga uppreisnarmanna og rússnesks leyniþjónustumanns og hins vegar á milli tveggja uppreisnarmanna þar sem talað er um að skotið hafi verið á flugvélina.
Ekki hefur þó verið sannreynt að upptökurnar séu af samtölum þessara manna.
Sakaðir um að hindra rannsókn
Um þrjátíu sérfræðingar frá Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu (ÖSE) hófu rannsókn á braki vélarinnar í gærkvöldi. Talsmaður stofnunarinnar segir að fyrsti hópurinn sem mætti á staðinn hafi mætt fjandskap af hálfu vopnaðra aðskilnaðarsinna sem ráða ríkjum á svæðinu.
Michael Bociurkiw, talsmaður rannsóknarliða ÖSE, sagði við CNN að þeim hefði verið meinaður aðgangur að stórum hluta svæðisins í kringum brakið. „Við munum snúa aftur á morgun og dagana eftir það,“ segir hann í viðtali við The Guardian. Nauðsynlegt sé að hraða rannsókninni.