Hvað ertu gömul Lukka Mörk? „Ég er 10 ára.“
Hvenær fékkstu áhuga á klettaklifri? „Ég held ég hafi alltaf haft áhuga á klettaklifri en ég byrjaði að æfa í fyrra.“
Hvernig kom það til? „Pabbi og mamma eru í hjálparsveit og fóru að fara með mig í klifur og mér fannst það gaman.“
Notar þú mikið vegginn í herberginu þínu? „Já ég nota hann mikið. Oft þegar ég kem heim úr skólanum.“
Æfir þú þig líka annars staðar? „Já ég æfi í Klifurhúsinu og í vetur verða æfingar tvisvar í viku.“
Hefurðu verið í alvöru klettum? „Já, hér og þar þegar við erum á ferðalagi, til dæmis á Hnappavöllum í Öræfum og í Búhömrum í Esju. Svo klifruðum við á nokkrum stöðum í Ölpunum í sumar, í Chamonix og Arco.“
Eru fleiri á þínum aldri sem þú veist um sem stunda klifur? „Já, frænka mín æfir hjá fimleikafélaginu Björk. Svo eru líka fleiri á mínum aldri sem æfa í Klifurhúsinu.“
Hvað er svona heillandi við klifur? „Bara allt. Átökin og áskorunin að komast upp. Svo þegar maður er úti er það útiveran, náttúran og klettarnir.“
Áttu fleiri áhugamál? „Já ég á fleiri áhugamál eins og til dæmis skátastarf, fjallgöngur, útilegur, lestur og sund með vinkonum mínum og leika mér á stökkpöllunum.“
Í hvaða skóla ertu? „Ég er í Kársnesskóla og byrjaði í eldri Kársnes í haust.“