Elvar Már Friðriksson var stigahæstur í sigri LIU Brooklyn í bandaríska háskólaboltanum í nótt en Njarðvíkingurinn er þó ekki lengur stigahæsti leikmaður liðsins á tímabilinu.
Stigahæsti leikmaður LIU Brooklyn eftir fjórtán fyrstu leiki tímabilsins er bakvörðurinn Martin, ekki Martin okkar Hermannsson, heldur Gerrell Martin.
Gerrell Martin hefur skorað 11,3 stig að meðaltali en hann var búinn að vera stigahæstur í tveimur leikjum á undan þessum í nótt. Martin er hörku þriggja stiga skytta en hann er með 1,9 þrista í leik og 41,5 prósent nýtingu af löngu færi.
Elvar Már Friðriksson hefur skorað 10,2 stig og í þriðja sætinu er síðan Martin Hermannsson með 9,2 stig í leik.
Elvar Már er með flestar stoðsendingar hjá LIU Brooklyn liðinu, 4,3 í leik og flesta stolna bolta, 1,7 í leik, en Martin er í öðru sæti í báðum þessum tölfræðiþáttum.
Elvar Már er sá eini í liðinu sem hefur komið að hundrað körfum í þessum fjórtán leikjum en hann hefur skorað 44 sjálfur og skapað 60 að auki fyrir félaga sína í liðinu. Martin Hermannsson hefur átt þátt í 90 körfum og Gerrell Martin hefur komið að 62 körfum.
Martin en ekki Martin stigahæstur hjá LIU Brooklyn í vetur

Tengdar fréttir

Elvar Már stigahæstur í æsispennandi sigurleik | Myndband
Njarðvíkingurinn fiskaði ruðning sem kláraði leikinn þegar innan við þrjár sekúndur voru eftir.

Fínn leikur Martins dugði ekki til
Elvar og Martin með tap á heimavelli.