Vindur fer vaxandi með kvöldinu og enn fer verður hlýnandi. Búist er við suð-suðaustan stormi, allt að 25 metra á sekúndu, vestantil á landinu í kvöld og framan af nóttu.
Í tilkynningu frá veðurfræðingi segir að búist sé við hviðum, 35 til 50 metra á sekúndu, frá um klukkan 21 á utanverðu Kjalarnesi og undir Hafnarfjalli. „Einnig á Siglufjarðarvegi um Fljót og Almenninga nærri miðnætti. Kólnar aftur úr vestri og á fjallvegum verður komið frost með éljum snemma í fyrramálið.“
Færð og aðstæður
Vegir eru auðir á höfuðborgarsvæðinu og austur yfir Hellisheiði og Þrengsli. Hringvegurinn er auður austur í Vík en hálka eða snjóþekja er þó víða á öðrum vegum á Suðurlandi.
Í tilkynningu frá Veðurstofunni segir að nokkur hálka eða snjóþekja sé á köflum á Vesturlandi, einkum inn til landsins. Það hefur verið nokkuð hvasst við Hafnarfjall.
„Á Vestfjörðum er víða hálka og snjóþekja. Flughált er á Raknadalshlíðinni.
Hringvegurinn er auður í Húnavatnssýslum en annars er víða nokkur hálka eða snjóþekja á Norður- og Norðausturlandi. Flughált er í Þistilfirði.
Hálka er einnig á velflestum vegum á Austur- og Suðausturlandi. Óveður er á Vatnsskarði eystra og þar er ófært. Flughált er úr Öræfum vestur undir Mýrdalssand.“
Miklar hviður á Kjalarnesi og undir Hafnarfjalli
Atli Ísleifsson skrifar
