Allar líkur eru á að það hvessi með kvöldinu, einkum á norðvestanverðu landinu. Búist er við að það verði kominn stormur, 15 til 22 metrar á sekúndu, og með éljum seint í kvöld.
Í tilkynningu frá Vegagerðinni segir að við þetta muni skafrenningur aukast til muna, sérstaklega á Snæfellsnesi, í Dölum, ofantil í Borgarfirði, á Vestfjörðum, Ströndum og vestantil á Norðurlandi. „Þá er reiknað með að nokkuð snjói staðbundið í hægum vindi suðaustanlands í kvöld og nótt frá Vík og austur fyrir Höfn.“
Færð og aðstæður
„Það er snjóþekja og skafrenningur bæði á Sandsskeiði, Hellisheiði og í Þrengslum en á Suðurlandi er víðast hvar hálka en sumstaðar þæfingur eða jafnvel þungfært á fáeinum sveitavegum. Hálkublettir eru á stofnbrautum á höfuðborgarsvæðinu, á Reykjanesbraut og Suðurnesjum.
Hálka er á flestum vegum á Vesturlandi en sumstaðar snjóþekja. Þæfingsfærð er á Fellsströnd. Snjóþekja eða hálka er á vegum á Vestfjörðum og víða skafrenningur.
Á Norðurlandi er víðast hvar nokkur hálka eða snjóþekja og sumstaðar él eða skafrenningur.
Snjóþekja, hálka eða hálkublettir eru á Austurlandi og allvíða ofankoma eða skafrenningur. Þæfingsfærð er á Jökulsárhlíð og Hróarstunguvegi. Vetrarfærð er einnig á Suðausturlandi,“ segir í tilkynningunni.
