Mikil krapastífla hefur nú myndast í Jökulsá á Fjöllum við brú á þjóðvegi nærri Grímsstöðum en þetta kemur fram í tilkynningu frá Veðurstofu Íslands.
Rétt ofan við brúnna á þjóðveginum er vatnshæðarmælir Veðurstofunnar og má því fylgjast með breytingum á vatnshæð, nánast í rauntíma. Bera fór á ístruflunum á þessum stað um miðjan desember en skömmum fyrir árslok dró mjög úr þeim.
Frá 11. janúar hefur ís/krapa stíflan verið að byggjast upp. Ís eða krapastíflur eru frekar algengar á þessum stað. Lofthiti, vindur og snjóalög eru afgerandi þættir við myndun ísstífla ásamt staðháttum þar sem stíflan myndast. Upphækkaðir vegir, brýr og varnargarðar geta haft mikil áhrif hvað þetta varðar.
Stórar krapastíflur í Jökulsá á Fjöllum myndast þegar mjög kalt er í veðri og skafrenningur. Vatnshiti lækkar þá hratt niður að frostmarki og verður jafnvel undirkældur í efri lögum en það fer eftir því hvort rennsli er jafnt eða iðukennt. Mikill krapaburður verður í ánni og við stefnubreytingu eða hindranir hrannast krapinn upp og byrjar að frjósa saman.
Ískristallar í undirkældu vatninu setjast á botninn og það myndast grunnstingull sem vex við þessi skilyrði frá botni og upp og þrengir þar með að ánni.
Mikil krapastífla í Jökulsá á Fjöllum
