Frönsk stjórnvöld hafa ákveðið að skapa 2.680 ný störf og auka fjárframlög um 425 milljónir evra, jafnvirði 65 milljarða króna, vegna aukins eftirlits með grunuðum hryðjuverkamönnum. Manuel Valls, forsætisráðherra landsins, greindi frá þessu í morgun.
Valls sagði aðgerðirnar nauðsynlegar til að fást við þá ógn sem stafar af auknum fjölda öfgamanna. Sagði hann þrjú þúsund manns nú vera undir eftirliti yfirvalda í landinu.
Saksóknari hafði áður greint frá því að fjórir menn hafi verið ákærðir vegna hryðjuverkaárásanna í París fyrr í mánuðinum. Mennirnir eru grunaðir um að hafa útvegað Amedy Coulibaly vopn en Coulibaly skaut lögreglukonu til bana þann 8. janúar og hélt fjölda fólks í gíslingu í matvöruverslun í austurhluta Parísar og myrti fjóra degi síðar.
Bræðurnir Chérif og Said Kouachi réðust 7. janúar inn á ritstjórnarskrifstofur tímaritsins Charlie Hebdo og drápu þar tólf manns. Bræðurnir og Coulibaly létust allir í aðgerðum lögreglu.
Valls segir að lögreglu og öryggissveitum landsins verði færður aukinn búnaður og vernd þeirra aukin, meðal annars með skotheldum vestum.
Frakkar efla eftirlit með grunuðum hryðjuverkamönnum

Tengdar fréttir

Boða aðgerðir gegn Evrópubúum sem slást í lið með öfgamönnum
Utanríkisráðherrar allra ríkja Evrópusambandsins hafa skuldbundið sig til að berjast sérstaklega gegn öfgamönnum úr röðum múslima sem hafa farið frá Evrópu til Sýrlands eða Íraks og snúið til baka. Utanríkisráðherrarnir hittust á sérstökum fundi í Brussel í dag.

Fimm Rússar gripnir í Frakklandi vegna áforma um hryðjuverk
Mennirnir voru handteknir í bæjunum Béziers og Montpellier í syðri hluta Frakklands í gærkvöldi.

Aukið samstarf við Arabaríki til að berjast gegn hryðjuverkum
ESB boðar samvinnuverkefni með múslimaríkjum í kjölfar árásanna í París. Meðal annars stendur til að bæta arabískukunnáttu.