Vincent Sanford hefur spilað sinn síðasta leik með Þór í Þorlákshöfn í Dominos-deild karla í körfubolta en Benedikt Guðmundsson hefur ákveðið að skipta um bandaríska leikmann liðsins. Þetta kemur fram á karfan.is
Þórsarar hafa unnið tvo fyrstu leiki ársins 2015 og Vincent Sanford var með 31 stig og 71 prósent þriggja stiga skotnýtingu. Hann er samt á förum frá liðinu.
Þórsarar gátu fengið hetjuna sína frá 2012 þegar liðið komst alla leið í úrslitaeinvígið um Íslandsmeistaratitilinn. Darrin Govens hefur spilað í Ísrael, Grikklandi og Ungverjalandi síðan hann var hjá Þór 2011-12.
Darrin Govens var frábær þetta tímabil en Þórsarar voru þá nýliðar í úrvalsdeildinni. Govens var þá með 23,5 stig, 6,0 fráköst og 5,3 stoðsendingar að meðaltali í leik og einn allra besti leikmaður deildarinnar.
„Ef við hefðum verið að leita eftir nýjum manni þá hefðum við mögulega tekið öðruvísi prófíl. Govens er ekki að fara að koma okkur af botninum í fráköstum í þessari deild en hann gerir margt annað sem á eftir að styrkja okkur,“ sagði Benedikt Guðmundsson í viðtali við karfan.is.
Þórsarar vonast eftir því að Darrin Govens spili sinn fyrsta leik þegar liðið mætir Keflavík á föstudagskvöldið.
Hetjan frá 2012 komin aftur til Þorlákshafnar
Óskar Ófeigur Jónsson skrifar

Mest lesið





Sumardeildin hófst á stórsigri
Fótbolti





Uppgjörið: KR - Breiðablik 1-1 | Allt jafnt á nýja gervigrasinu
Íslenski boltinn