Hálkublettir eru á höfuðborgarsvæðinu en hálka á Sandskeiði, snjóþekja á Hellisheiði og hálkublettir í Þrengslum. Flughálka er á efri hluta Biskupstungnabrautar og í Grafningi en annars er hálka eða hálkublettir nokkuð víða á Suðurlandi. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Vegagerðinni.
Á Vesturlandi er víða hálka eða hálkublettir en þó er greiðfært í Hvalfirði og á aðalleiðum í Borgarfirði og á Mýrum. Flughálka er í Ísafjarðardjúpi og á Steingrímsfjarðarheiði en hálka eða hálkublettir á öðrum leiðum á Vestfjörðum.
Hálkublettir eru á flestum leiðum á Norðurlandi vestra en hálka er á Öxnadalsheiði. Norðaustanlands er aftur á móti víða hálka á vegum.
Það er flughálka á flestum leiðum á Fljótsdalshéraði, Vatnsskarði eystra og á Fjarðarheiði en þar er einnig skafrenningur. Einnig er flughálka í Fáskrúðsfirði og Breiðdal. Hálkublettir eru frá Djúpavogi að Höfn en greiðfært þaðan og áfram með suðausturströndinni.
