Bandaríkjamenn fjölmenntu fyrir framan sjónvarpstækin á sunnudag til þess að fylgjast með leik Seattle Seahawks og New England Patriots í úrslitum ameríska fótboltans.
Alls sáu 114,4 milljónir Bandaríkjamanna leikinn sem er met í sjónvarpsáhorfi þar í landi. Metið átti Super Bowl-leikurinn í fyrra en hann sáu 112,2 milljónir Bandaríkjamanna.
Reyndar eru sex síðustu Super Bowl-leikir vinsælasta sjónvarpsefni í sögu Bandaríkjanna.
Skal engan undra að margir hafi fylgst með leiknum sem var stórkostleg skemmtun. New England vann dramatískan sigur og hefur nú unnið deildina fjórum sinnum.
