Atlanta Hawks er óstöðvandi þessa dagana en liðið er taplaust á árinu 2015 og hefur unnið 19 leiki í röð. Í nótt báru Haukarnir sigurorð af Philadelphia 76ers, 91-85.
Al Horford skoraði 23 stig og tók 11 fráköst fyrir Atlanta en hann var sérlega mikilvægur á lokakafla leiksins. Paul Millsap og Dennis Schroder komu næstir með 15 stig hvor.
Luc Mbah a Moute, Michael Carter-Williams og Jerami Grant skoruðu 13 stig hver fyrir Philadelphia sem er í næstneðsta sæti Austurdeildarinnar. Aðeins New York Knicks er með verri árangur austan megin í vetur.
Stephen Curry skoraði 25 stig og gaf sjö stoðsendingar þegar Golden State Warriors vann Phoenix Suns, 106-87. Fyrir leikinn höfðu Curry og félagar tapað tveimur leikjum í röð en góður seinni hálfleikur tryggði þeim sigurinn gegn Phoenix.
Klay Thompson skoraði 22 stig fyrir Golden State og Harrison Barnes bætti 13 stigum og átta fráköstum við.
Markieff Morris skoraði mest fyrir Phoenix, eða 17 stig. Hann tók einnig 11 fráköst.
LeBron James og félagar í Cleveland Cavaliers eru á miklu skriði og unnu sinn tíunda leik í röð þegar þeir sóttu Minnesota Timberwolves heim. Lokatölur 106-90, Cleveland í vil en liðið er í 5. sæti Austurdeildarinnar.
James skoraði 36 stig fyrir Cleveland en 16 þeirra komu í fjórða leikhluta. Kevin Love hitti illa gegn sínum gömlu félögum en skilaði 14 stigum og 17 fráköstum.
Nýliðinn Andrew Wiggins fór fyrir Úlfunum með 33 stig.
Úrslitin í nótt:
Sacramento 99-94 Indiana
Dallas 108-93 Orlando
Toronto 120-116 Washington
Philadelphia 85-91 Atlanta
Houston 101-114 Detroit
Oklahoma 74-85 Memphis
Cleveland 106-90 Minnesota
Portland 88-95 Milwaukee
Charlotte 104-86 Denver
Los Angeles Clippers 105-85 San Antonio
Phoenix 87-106 Golden State