Abdel-Fattah el-Sidssi, forseti Egyptalands, segir bestu leiðina til að losa Líbíu við oftækismenn sé að stofna hernaðarbandalag sem nýtur stuðnings sameinuðu þjóðanna. Þá segir hann að loftárásir Egypta gegn ISIS í Líbíu hafi verið gerðar í sjálfsvörn.
Vígamenn Íslamska ríkisins myrtu 21 kristna Egypta nýverið og birtu myndband af fjöldamorðinu á netinu. Mikil reiði er í Egyptalandi vegna málsins.
„Við munum ekki leyfa þeim að skera höfuðin af börnum okkar,“ sagði el-Sissi í viðtali hjá franskri útvarpsstöð. „Við höfum skilið Líbísku þjóðina eftir í höndum vígamanna.“
Hann sagði ISIS hafa framið stóran glæp og að loftárás gegn þeim hefði verið sjálfsvörn.
„Það sem gerðist var glæpur, ógeðfellt hryðjuverk. Að skera háls barna okkar í Líbíu.“
Egyptar gerðu minnst tvær loftárásir í Líbíu sem voru gagnrýndar af Omar al-Hassi, sem situr sem forsætisráðherra með stuðningi vígamanna. Kjörin ríkisstjórn landsins var hrakin úr Tripoli, höfuðborg Líbíu, á síðasta ári og vígahópar mynduðu eigin ríkisstjórn.
El-Sissi ræddi í gær við forseta Frakklands og Ítalíu um ástandið. Þá fór utanríkisráðherra Egyptalands til New York í gær þar sem hann mun ræða ástandið á ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna sem hefst á morgun.
„Við munum ekki leyfa þeim að skera höfuðin af börnum okkar“

Tengdar fréttir

Vilja eyða ISIS
Jórdanía hefur lýst yfir stríði gegn Íslamska ríkinu og segja að árásir þeirra muni halda áfram þar til samtökunum hafi verið útrýmt.

ISIS nota þroskaskert börn til sjálfsmorðsárása
Börn sem hryðjuverkasamtökin hafa handsamað eru seld í kynlífsánauð og myrt samkvæmt Sameinuðu þjóðunum.

Biður um heimild fyrir landhernaði gegn ISIS
Allt að 20.000 erlendir vígamenn hafa gengið til liðs við ISIS og aðra uppreisnarhópa í Sýrlandi og Írak.