Pavel Ermolinskij, leikstjórnandi deildarmeistara KR, hefur ekki spilað með KR-ingum í síðustu þremur deildarleikjum og hann ætlar ekki að flýta sér til baka eftir meiðsli.
Pavel, sem meiddist á vöðva aftan í læri í bikarúrslitaleiknum á dögunum, fylgdist með félögum sínum frá hliðarlínunni í gær þegar KR-ingar unnu öruggan sigur á Þór og tóku síðan við deildarmeistarabikarnum í leikslok.
Guðjón Guðmundsson ræddi við Pavel Ermolinskij í gær og hann segist vera á batavegi.
„Þetta lítur ágætlega út. Ég er að ná að hreyfa mig ágætlega en það er stór munur á því að geta hlaupið og að geta spilað," sagði Pavel Ermolinskij við Gaupa í kvöldfréttum Stöðvar tvö.
„Mér sýnist nú strákarnir ekki þurfa voðalega mikið á mér að halda. Ég ætla að vera viss um að vera alveg klár þegar ég kem til baka. Það er ennþá töluvert í land og núna skiptir hver einasti dagur rosalegu máli," sagði Pavel.
„Ég er betri í dag en í gær og það heldur vonandi áfram svoleiðis. Vonandi verð ég klár þegar úrslitakeppnin kemur en það er engin leið til að segja til um það," sagði Pavel.
Pavel: Stór munur á því að geta hlaupið og að geta spilað
Tengdar fréttir

Finnur Freyr: Martin spilar ekki með KR
KR-ingar fara ekki sömu leið og Njarðvíkingar og nýta sér liðsstyrk frá Brooklyn.

Pavel: Kem í besta falli inn í úrslitakeppnina
Landsliðsmaðurinn Pavel Ermolinskij segir margt furðulegt við meiðslin sem hann varð fyrir í bikarúrslitaleiknum um helgina.

Pavel nær úrslitakeppninni | Rifan í lærinu fundin
Pavel Ermolinskij mun ekki vera með KR-liðinu í þremur síðustu leikjum liðsins í Dominos-deildinni samkvæmt frétt á heimasíðu KR en þar kemur einnig fram að að hann ætti að geta spilað með KR-liðinu í úrslitakeppninni.

Finnur: Ólíklegt að Pavel verði með í 8-liða úrslitunum
Finnur Freyr Stefánsson, þjálfari deildarmeistara KR, segir ólíklegt að Pavel Ermolinskij verði með í fyrstu umferð úrslitakeppninnar en leikstjórnandinn meiddist í bikarúrslitaleiknum gegn Stjörnunni.