Keflvíkingar eiga möguleika á því að hækka sig verulega í stigatöflunni takist þeim að vinna tvo síðustu leiki sína í Dominos-deildinni en næstsíðasta umferðina klárast í kvöld.
Keflavíkurliðið mætir Snæfelli í kvöld og getur með sigri séð til þess að Hólmarar verði ekki með í úrslitakeppninni í ár.
Keflvíkingar eru eins og er í sjöunda sæti deildarinnar með 20 stig, fjórum stigum á eftir liðunum í 3. og 4. sæti. Það er hinsvegar góður árangur í innbyrðisleikjum við liðin fyrir ofan sig sem gæti hjálpað Keflavíkurliðinu að hækka sig í töflunni.
Keflvíkingar eru nefnilega með betri árangur á móti Haukum (+10, eiga eftir að mætast í lokaumferðinni), Stjörnunni (+2), Njarðvík (+2), Grindavík (+20, unnu báða leikina) og svo Þór Þorlákshöfn (+12) sem er með jafnmörg stig í 7. til 8. sæti.
Keflvíkingar mæta Snæfelli í kvöld og svo Haukum í lokaumferðinni á fimmtudaginn. Með sigri í báðum leikjum ná Keflvíkingar að komast upp í 26 stig og verði úrslitin þeim hagstæð gætu þeir náð alla leið upp í þriðja sæti deildarinnar.
Það er ljóst að innbyrðisviðureignir munu ráða miklu um lokastöðuna í deildinni og þar eru sem dæmi nágrannar þeirra í Njarðvík í ekki eins góðum málum enda undir innbyrðis á móti Haukum (0-2, -23), Grindavík (1-1, -2), Stjörnunni (0-1, -7) og Keflavík (1-1, -2).
Á sama tíma og Keflvíkingar eiga möguleika á því að hækka sig í töflunni á innbyrðisviðureignum þurfa Njarðvíkingar að vinna sína leiki til þess að detta ekki niður um sæti vegna óhagstæðra úrslita á móti liðunum í kringum sig.
Fylgst verður með leikjum kvöldsins í Dominos deild karla á Vísi en bein textalýsing verður frá öllum þremur leikjunum auk þess að fallbaráttuslagur ÍR og Skallagríms verður sýndur beint Stöð2 Sport 3.
Keflvíkingar með betri innbyrðisárangur á móti öllum liðum í kringum sig

Tengdar fréttir

Finnur Freyr: Martin spilar ekki með KR
KR-ingar fara ekki sömu leið og Njarðvíkingar og nýta sér liðsstyrk frá Brooklyn.

Elvar Már spilar með Njarðvíkurliðinu í kvöld
Elvar Már Friðriksson verður með Njarðvíkurliðinu í kvöld þegar liðið mætir Stjörnunni í 21. og næstsíðustu umferð Dominos-deildar karla í körfubolta. Þetta kemur fram á karfan.is.

Matthías Orri: Deildin yrði ekki eins án stórveldis eins og ÍR
Leikstjórnandi verið meiddur en er klár í slaginn og spilar mikilvægasta leik ÍR á tímabilinu í kvöld.