Innlent

Búið að opna Þrengslin en Hellisheiði enn lokuð

Samúel Karl Ólason skrifar
Vegirnir yfir Mosfellsheiði og  við Hafnarfjarll hafa verið opnaðir.
Vegirnir yfir Mosfellsheiði og við Hafnarfjarll hafa verið opnaðir. Vísir/Vilhelm
Starfsmenn Vegagerðarinnar hafa nú opnað veginn yfir Mosfellsheiði og veginn undir Hafnarfjalli. Búið er að opna Þrengslin en Hellisheiði er enn lokuð. G. Pétur Matthíasson, upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar segir að unnið sé að opnun þeirra leiða.

Opið er þó um Suðurstrandaveg.

Í kvöld mun lægja víða um land en útlit er fyrir hríðarveður á fjallvegum á Austurlandi. Hálka eða hálkublettir eru víða um land samkvæmt tilkynningu frá Vegagerðinni:

Hálkublettir og óveður eru á Kjalarnesi, hálka og óveður er við sunnanverðan Hvalfjörð. Hálka eða hálkublettir er víða á Suðurlandi.

Á Vesturlandi er hálka og hálkublettir og skafrenningur á fjallvegum. Ófært og stórhríð er á Fróðárheiði. Hálka og óveður er undir Hafnarfjalli. Stórhríð og hálka er á Útnesvegi.

Hálka eða snjóþekja er nánast á öllum á vegum á Vestfjörðum, þó er Þæfingsfærð á Gemlufallsheiði, Klettshálsi og hluta að djúpinu en aðeins hálkublettir á Innstrandavegi. Ófært og stórhríð er á Hálfdán, Mikladal og Kleifaheiði. Ófært um Raknadalshlíð.

Á Norðurlandi er hálka, hálkublettir eða snjóþekja  á vegum og eitthvað um skafrenning. Snjóþekja og skafrenningur er á Öxnadalsheiði.

Hálka, snjóþekja eða hálkublettir eru á vegum á Austurlandi. Greiðfært er frá Breiðdalsvík með suðausturströndinni vestur undir Öræfi en þar tekur við hálka og hálkublettir. Óveður er við Hvamm undir Eyjafjöllum.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×