„Vonandi var þetta síðasti hvellur vetrarins, en maður veit aldrei,“ Helga Ívarsdóttir, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands, um veðurofsann sem gengið hefur yfir landið í dag. Hún segir að búast megi þó við stormi annað kvöld og á mánudag. Það verði þó ekki í líkingu við það sem Íslendingar sáu í dag.
„Það mun draga úr vindi í nótt og í fyrramálið og verður þokkalegt veður í fyrramálið,“ segir hún aðspurð um framhaldið. Hún segir þó að stormur gæti orðið á landinu á sunnudagskvöld og á mánudag.
„Það gæti orðið stormur allra syðst og þessu fylgir talsverð rigning um landið sunnanvert og einhver slydda fyrir norðan,“ segir hún.
Eftir því sem líður á vikuna ætti veðrið að vera skaplegt. „Það á að draga úr þessu þegar líður á mánudag og á þriðjudag og miðvikudag verðum við bara í fínasta verði,“ segir hún. „Jafnvel einhverjar sólarglennur.“
Á fimmtudag nálgast svo næstu skil úr suðri. „En það er ekkert í líkindum við þetta í kortunum,“ segir hún. „Þetta er búið að vera hvassasta veðrið í vetur.“
Önnur lægð á leiðinni: Það versta vonandi yfirstaðið
Aðalsteinn Kjartansson skrifar
