Golf

Þessi lyfjapróf eru brandari

John Daly.
John Daly. vísir/getty
Skrautlegasti kylfingur heimsins, John Daly, er allt annað en sáttur við lyfjaprófin á PGA-mótaröðinni. Hann segir þau vera fyrirsjáanleg og komi aldrei neinum á óvart.

Daly var lyfjaprófaður sjötta árið í röð á sama mótinu og vissi vel að hann yrði prófaður þó svo prófin eigi að vera handahófskennd.

Það sem Daly finnst verst er að halda í sér því hann veit að lyfjapróf bíður hans. Hann nennir ekki að eyða og miklum tíma þar.

„Ég hef ekkert á móti því að fara í lyfjapróf en þegar ég þarf að halda í mér í tvo klukkutíma þá hefur það áhrif á spilamennskuna," sagði Daly.

„Þessi próf eru allt annað en handahófskennd. Prófin eiga að koma mönnum á óvart en það vita allir hvar og hvenær verður prófað. Það er sorglegt og þessi próf eru bara brandari."

Daly býst við því að verða sektaður fyrir þessi ummæli sín. Honum sé sama. Hann taki á sig skellinn fyrir það sem allir séu að tala um.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×