Gísli Freyr Valdórsson, fyrrverandi aðstoðarmaður innanríksiráðherra, hefur samþykkt að greiða Evelyn Glory Joseph bætur vegna leka á trúnaðargögnum sem snertu hana úr ráðuneytinu. Þetta staðfestir lögmaður Joseph.
„Þessi niðurstaða skiptir hana verulegu máli,“ segir Katrín Oddsdóttir lögmaður sem segir að gengið hafi verið frá sátt í málinu í morgun. Taka átti fyrir skaðabótamál Joseph á hendur Gísla Frey fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur en þar sem sátt náðist er það óþarft.
Líkt og flestum er kunnugt viðurkenndi Gísli Freyr á síðasta ári að hafa lekið trúnaðargögnum um hælisleitandann Tony Omos til fjölmiðla en í gögnunum var einnig talað um Joseph og íslenska konu. Hann var dæmdur í skilorðsbundið fangelsi vegna málsins.
Áður höfðu sáttaumleitanir ekki borið árangur en skaðabótamálinu var í lok febrúarmánuði frestað þar sem enn var reynt að ná sáttum. Joseph fór fram á 4,5 milljónir króna skaðabætur úr hendi Gísla Freys.
Gísli Freyr hefur áður samþykkt að greiða íslensku konunni skaðabætur.

