Fjöldahjálparstöð var opnuð í húsnæði Suðurnesjadeild Rauða krossins síðdegis í dag. Þar bíða nú rúmlega tuttugu grunnskólanemar frá Manchester, en rúta þeirra fór út af veginum á leið í Bláa lónið.
„Við fengum boð fljótlega eftir fjögur um að rúta hefði farið út í vegrið á Reykjanesbrautinni,“ segir Guðmundir Þórir Ingólfsson, framkvæmdastjóri Suðurnesjadeildarinnar. „Um borð voru skólakrakkar á aldrinum fjórtán til fimmtán ára ásamt tveimur fararstjórum og bílstjóra.“
Guðmundur segir að hópurinn hafi verið kominn í húsnæðið við Smiðjuvelli um fimmleytið. Þar bíða þau eftir að verða sótt. Ekki stendur til að halda fjöldahjálparstöðinni opið mikið lengur enda veður að skána á Suðurnesjum.
„Einn annar ökumaður kom hingað, íslenskur, sem var sóttur strax,“ segir Guðmundur. „Það er búið að opna Reykjanesbrautina þannig að það er bara verið að bíða eftir rútunni úr bænum.“
