„Ef við spilum af sama krafti og ákveðni og við höfum verið að gera allt tímabilið þá getum við farið mjög langt og jafnvel alla leið í lokaúrslitin," sagði Tindastólsmaðurinn Darrel Keith Lewis í viðtali við Arnar Björnsson á kynningarfundi fyrir úrslitakeppnina.
Darrel Keith Lewis hefur spilað mjög vel með Tindastósliðinu og er að skora 20,8 stig í leik þrátt fyrir að vera orðinn 39 ára gamall.
„Við áttum annað sætið skilið og unnum vel fyrir því. Ég held samt að við hefðum getað staðið okkur betur því við spiluðum ekki nógu vel í nokkrum leikjanna," sagði Darrel en óttast hann eitthvert lið í úrslitkeppninni.
„Við erum ekki hræddir við neitt lið í þessari úrslitakeppni. Við erum harðir að okkur og ætlum að láta finna fyrir okkur frá fyrsta leik," sagði Darrel Keith Lewis en það má sjá allt viðtal Arnars Björnssonar við hann hér fyrir neðan.
Fyrsti leikur Tindastóls og Þórs úr Þorlákshöfn hefst klukkan 19.15 í kvöld en leikurinn fer fram í Síkinu á Sauðárkróki.