Hálkublettir eru á Sandsskeiði, Hellisheiði og í Þrengslum en þetta kemur fram í tilkynningu frá Vegagerðinni.
Einnig er nokkur hálka á köflum á Suðurlandi, einkum útvegum og sumstaðar er jafnvel þæfingur eða þungfært á sveitavegum.
Á Vesturlandi er víða snjóþekja eða hálka en Fróðárheiði er ófær en unnið að hreinsun.
Hálka, snjóþekja og jafnvel þæfingur er á Vestfjörðum og þungfært á kafla í Barðastrandasýslu. Ófært er á Steingrímsfjarðarheiði og verið að kanna færð á Þröskuldum.
Á Norðurlandi er víðast hvar hálka eða snjóþekja og éljagangur nokkuð víða. Þæfingsfærð er á Þverárfjalli og verið að kanna færð á Öxnadalsheiði. Í Eyjafirði er víða þæfingur en verið að hreinsa.
Á Austurlandi er þæfingur á Fjarðarheiði og snjóþekja á Fagradal og Oddsskarði. Snjóþekja er með suðausturströndinni og þæfingsfærð í Öræfasveit en unnið að hreinsun.
Veðurhorfur á landinu næsta sólarhringinn: Norðlæg eða breytileg átt, 8-15 m/s, hvassast austantil, léttskýjað sunnan- og vestanlands, dálítil él NV-til en snjókoma eða él NA- og A-lands.
Hægari vindur þegar líður á kvöldið og dregur úr úrkomu. Gengur í norðvestan 10-18 m/s norðaustan til á landinu eftir hádegi á morgun með éljum. Annars hægari vindur. Bjartviðri fyrir sunnan, en stöku él norðvestan til. Frost 0 til 8 stig, en hiti um frostmark við SA- og A-ströndina.
