Körfubolti

Sverrir Þór hættur með Grindavíkurliðið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sverrir Þór Sverrisson.
Sverrir Þór Sverrisson. Vísir/Ernir
Sverrir Þór Sverrisson þjálfar ekki áfram í Grindavík næsta vetur en hann hefur ákveðið að taka sér frí frá þjálfun næsta vetur. Þetta kemur fram á karfan.is.

Sverrir Þór vildi ekki klára síðasta tímabilið á samningi sínum og hættir því að þjálfa hjá Grindavík um leið og Grindavíkurkonur klára úrslitakeppnina sem hófst í kvöld.

Sverrir Þór tók við liði Grindavíkur sumarið 2012 en hann hafði þá gert kvennalið Njarðvíkur að tvöföldum meisturum.

Grindavík endaði í áttunda sæti í Dominos-deildar karla í vetur og tapaði síðan 3-0 fyrir deildarmeisturum KR í átta liða úrslitum úrslitakeppninnar.

„Þetta er bara komið gott í bili en það er alveg á tandur hreinu að á næsta tímabili ætla ég mér að vera í algeru fríi.  Engar æfingar sem leikmaður eða þjálfari og er það líkast til í fyrsta skipti bara hreinlega síðan ég man eftir mér.  Ég lagði skóna á hilluna 35 ára og hef verið við þjálfun síðan þá og var fyrir það bæði í körfuboltanum og svo fótboltanum." sagði Sverrir í samtali við karfan.is.

Sverrir Þór gerði karlalið Grindavíkur bæði að Íslandsmeisturum og bikarmeisturum og kvennalið félagsins vann bikarinn undir hans stjórn í vetur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×