Chris Copeland, leikmaður Indiana, og eiginkona hans lentu í hnífaárás í gær.
Þau voru að lyfta sér upp á næturklúbbi í New York. Hávaðarifrildi endaði þá með því að 22 ára gamall maður dró upp hníf og réðst að Copeland-hjónunum.
Copeland var stunginn í magann en eiginkonan var stungin í handlegginn og einnig var hún skorin á brjóstum og rassi. Hinn meinti árásarmaður hefur verið handtekinn. Nokkrir leikmanna Atlanta Hawks voru einnig á staðnum en sluppu við átökin.
Hjónin eru í stöðugu ástandi en liggja enn á sjúkrahúsi.
Leikmaður Indiana stunginn í New York
