Körfubolti

Meistararnir unnu 50. leikinn | Myndbönd

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Kawhi Leonard skoraði 20 stig fyrir San Antonio í nótt.
Kawhi Leonard skoraði 20 stig fyrir San Antonio í nótt. vísir/afp
Tíu leikir fóru fram í NBA-deildinni í nótt.

Meistarar San Antonio Spurs báru sigurorð af Denver Nuggets á heimavelli, 123-93. Þetta var 50. sigur San Antonio í vetur en liðið hefur nú unnið 50 leiki 16 tímabil í röð.

San Antonio tók völdin strax í 1. leikhluta og leiddi að honum loknum með 20 stigum, 45-25. Sóknarleikur meistaranna var frábær en til marks um það var skotnýting Spurs í 1. leikhluta 79%.

Danny Green skoraði 21 stig fyrir Spurs en Kawhi Leonard kom næstur með 20 stig. Allir leikmenn San Antonio komust á blað í leiknum.

Memphis Grizzlies vann sterkan átta stiga sigur á Oklahoma City Thunder, 100-92, þar sem Jeff Green skoraði 22 stig. Hann spilaði einnig góða vörn á Russell Westbrook sem var aðeins með 18 stig og brenndi af 18 af 23 skotum sínum utan af velli.

Marc Gasol bætti 19 stigum við fyrir Memphis sem er í 3. sæti Vesturdeildarinnar. Enes Kanter var atkvæðamestur í liði OKC með 24 stig og 17 fráköst.

Pau Gasol var með 24 stig og 10 fráköst þegar Chicago Bulls vann sex stiga sigur á Detroit Pistons, 88-82. Þetta var tvenna númer 50 hjá Spánverjanum í vetur en hann hefur öðlast nýtt líf eftir vistaskiptin frá Los Angeles Lakers til Chicago.

Úrslitin í nótt:

Indiana 93-74 Charlotte

Washington 101-87 New York Knicks

Boston 101-110 Milwaukee

Brooklyn 114-109 Toronto

Chicago 88-82 Detroit

Memphis 100-92 Oklahoma

Minnesota 84-97 Orlando

San Antonio 123-93 Denver

Sacramento 95-101 New Orleans

LA Lakers 77-107 Portland

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×