Það er nú staðfest að Gunnar Nelson berst á langstærsta UFC-bardagakvöldi ársins í Las Vegas 11. júlí þar sem tveir titilbardagar fara fram.
Aðalbardaginn er viðureign írska vélbyssukjaftsins Conors McGregors og Brasilíumannsins Jose Aldo um heimsmeistaratitilinn í fjaðurvigt. Conor og Gunnar eru miklir vinir og æfa mikið saman.
Einnig fer fram titilbardagi í veltivigtinni, þyngdarflokki Gunnars, þar sem Robbie Lawler og Rory McDonald berjast.

Gunnar mætir Bretanum John Hathaway sem á að baki 17 sigra og aðeins tvö töp í MMA, en Gunni hefur unnið þrettán bardaga, tapað einum og gert eitt jafntefli.
Síðast þegar Gunnar barðist tapaði hann fyrir Rick Story í Stokkhólmi, en Þessi Hathaway hefur unnið Story og er virkilega öflugur bardagakappi.
„Þetta er stór veltivigtari en Gunni er nú vanur að mæta stórum strákum. Hann kom inn sem glímumaður en bardagarnir hans hafa verið meira standandi. Hann er með góð hné og nýtir styrkleika sína vel,“ segir Haraldur um Hathaway.
It's official! @GunniNelson vs. @ufcjohnhathaway at #UFC189: http://t.co/7J2HLS7yHB pic.twitter.com/h4UFz2HRmF
— UFC United Kingdom (@UFC_UK) April 1, 2015
Haraldur gekk frá bardaganum ásamt Joe Silva, varaforseta UFC, í dag, en Silva er aðalmaðurinn þegar kemur að því að setja upp bardaga innan UFC. „Það er alveg frábært að fá bardaga á þessu kvöldi,“ segir Haraldur Dean Nelson.
Frekari upplýsingar um bardaga kvöldsins má finna hér á heimasíðu UFC.