KR-ingar eru komnir í 2-1 í undanúrslitaeinvígi sínu á móti Njarðvík í Domnios-deild karla í körfubolta eftir að þeim tókst að lifa af afar slæman kafla í þriðja leiknum í Vesturbænum í gærkvöldi.
Njarðvíkingar sýndu allt annan og miklu betri leik en í fyrsta leik sínum í DHL-höllinni og fóru illa með deildarmeistarana á stórum kafla í fyrri hálfleiknum.
KR-liðið komst í 5-0 eftir eina mínútu en Njarðvíkurvörnin hélt Íslandsmeisturunum síðan í aðeins tíu stigum næstu fjórtán mínútur leiksins.
Njarðvíkingar unnu þessa fjórtán mínútur 30-10 og komust með því fimmtán stigum yfir, 30-15. Þá voru aðeins fimm mínútur og tuttugu sekúndur eftir af fyrri hálfleiknum.
Finnur Freyr Stefánsson, þjálfari KR, tók þarna leikhlé og náði að endurstilla sitt lið. Pavel Ermolinskij, sem lék á ný með liðinu í gær, skoraði sína fyrstu körfu í næstu sókn og KR-ingum tókst síðan að minnka muninn í fjögur stig fyrir hálfleik með því að vinna lokakafla hálfleiksins 18-7.
KR minnkaði muninn í eitt stig fyrir lokaleikhlutann og KR-liðið vann síðan fjórða leikhlutann 27-18 og tryggði sér sigur og þar með með mikilvæga 2-1 forystu í einvíginu.
Fjórði leikur KR og Njarðvíkur fer fram í Ljónagryfjunni í Njarðvík á miðvikudagskvöldið og verður sýndur beint á sportrás 365.
