Hólmar Örn Eyjólfsson og félagar í Rosenborg hafa farið frábærlega af stað í norsku úrvalsdeildinni. Í fyrstu umferðinni vann liðið 5-0 sigur á Álasund og í dag fékk Haugesund að kenna á því.
Lokatölur 6-0, Rosenborg í vil en liðið í toppsæti deildarinnar með sex stig og markatöluna 11-0. Hólmar lék allan leikinn í miðri vörn Rosenborg.
Viking bar sigurorð af Tromsö á heimavelli, 3-1. Indriði Sigurðsson og Jón Daði Böðvarsson voru báðir í byrjunarliði Viking. Sá síðarnefndi fór af velli þegar 10 mínútur voru eftir af leiknum. Steinþór Freyr Þorsteinsson kom inn á sem varamaður á 67. mínútu en Björn Daníel Sverrisson er frá vegna meiðsla.
Guðmundur Kristjánsson sneri aftur á völlinn eftir meiðsli þegar Start vann 2-1 sigur á Sandefjord. Guðmundur, sem er fyrirliði Start, spilaði allan leikinn líkt og Matthías Vilhjálmsson. Ingvar Jónsson sat allan tímann á varamannabekknum.
Þá vann Odd 2-0 sigur á Stabæk.
Úrslit dagsins:
Álasund 1-1 Lilleström
Haugesund 0-6 Rosenborg
Odd 2-0 Stabæk
Start 2-1 Sandefjord
Viking 3-1 Tromsö
Dúndurbyrjun Rosenborg | Sigrar hjá Start og Viking
Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
