Sameinuðu þjóðirnar hafa óskað eftir 415 milljónum Bandaríkjadala, rúmlega 56 milljörðum íslenskra króna, í þágu hjálparstarfsins í Nepal. Fjárhæðin verður notuð í neyðaraðstoð næstu þrjá mánuðina.
Milljónir eru án skjóls og matar og er þörfin á öllum helstu nauðsynjum því mikil. Hjálpargögn frá UNICEF bárust til landsins í dag og voru þyrlur notaðar til að koma þeim til afskekktra þorpa. Þó er talið að það muni taka nokkurn tíma að koma þeim til allra. Íbúar eru farnir að örvænta og hefur óeirðalögregla í nokkur skipti verið kölluð til.
Þörf á læknisaðstoð er einnig mikil en rúmlega áttatíu prósent heilsugæslustöðva í héruðunum fimm sem verst eru leikin í landinu hafa skemmst verulega. Fær fólk því víða læknisaðstoð úti undir berum himni.
Rúmlega fimm þúsund manns létust í skjálftanum og yfir tíu þúsund eru slasaðir. Þá eru yfir 200 þúsund á vergangi.
Sameinuðu þjóðirnar kalla því eftir stuðningi alþjóðasamfélagsins, því mál sem þessi þoli enga bið.
Sameinuðu þjóðirnar kalla eftir stuðningi frá alþjóðasamfélaginu

Tengdar fréttir

Átta milljónir þurfa aðstoð
Sameinuðu þjóðirnar segja brýnt að koma neyðarbúnaði til fólks í Nepal.

Þjóðarsorg lýst yfir í Nepal
Forsætisráðherra Nepals segir að fjöldi látinna gæti nálgast tíu þúsund.

Íslendingar taka höndum saman og safna fyrir bágstadda í Nepal
Meðlimir í félagi Nepala á Íslandi hvetja fólk til þess að gefa í safnanir vegna jarðskjálftanna í Nepal. Margt smátt gerir eitt stórt og hver einasta gjöf, hvort sem er peningur eða föt, hjálpar.

Ungbarni bjargað úr rústum eftir 22 klukkustundir
Fjögurra mánaða dreng var bjargað úr rústum húss sem hrunið hafði til grunna í jarðskjálftanum í Nepal á laugardag.