Úkraínumaðurinn Wladimir Klitschko heldur fast um heimsmeistarabeltin sín og hann var ekki í vandræðum með Bryan Jennings um helgina er þeir mættust í New York.
Klitschko vann öruggan sigur hjá dómurum en bardaginn fór allar tólf loturnar. Þetta var fyrsta tap Jennings.
Eins og svo oft áður bauð Klitschko ekki upp á neina flugeldasýningu en hann gerir alltaf meira en nóg til þess að vinna.
Þetta var 22. bardaginn í röð sem hann vinnur og þetta var líka 18. skiptið í röð sem honum tekst að verja heimsmeistarabelti.
Klitschko tilkynnti eftir bardagann að hann myndi næst berjast við Tyson Fury en stefnt er að því að sá bardagi fari fram í Evrópu.
