Brynjar Þór Björnsson, fyrirliði KR, verður í sviðsljósinu í kvöld þegar KR tekur á móti Tindastól í fyrsta leik liðanna í úrslitaeinvíginu um Íslandsmeistaratitilinn í Dominos-deild karla.
Leikur KR og Tindastóls hefst klukkan 19.15 í DHL-höllinni í Frostaskjóli og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport.
KR og Tindastóll hafa mæst fjórum sinnum á tímabilinu, KR hefur unnið þrjá leiki og Stólarnir einn.
Brynjar Þór hefur þó ekki upplifað það ennþá í vetur að tapa fyrir Tindastólsliðinu því hann missti af tapleiknum á Króknum. KR-ingar töpuðu þá sínum fyrsta leik á tímabilinu en leikurinn fór fram 22. janúar.
Brynjar er því sá eini af lykilmönnum KR-liðsins sem hefur ekki upplifað það að tapa fyrir Tindastól í vetur. Magni Hafsteinsson tók hinsvegar fram skóna á ný í kjölfar tapsins á Króknum og er því í taplausa hópnum með Brynjari.
Brynjar hefur skorað 21,0 stig að meðaltali í þremur leikjum sínum við Stólanna í vetur þar af 23 stig eða meira í tveimur af þessum þremur leikjum.
Brynjar átti mikinn þátt í því að koma í veg fyrir sigur Stólanna í deildarleik liðanna í DHL-höllinni í október en hann skoraði þá 8 af 28 stigum sínum á síðustu tveimur mínútunum og í framlengingunni.
Brynjar hefur því skorað mun meira að meðaltali á móti Tindastól en hann er að skora að meðaltali í Dominos-deildinni sem eru 14,4 stig að meðaltali í leik.
Leikir Brynjars á móti Tindastól í vetur:
27. september - Úrslitaleikur Lengjubikarsins í Ásgarði
KR vann leikinn 83-75
23 stig, 2 stoðsendingar, 2 stolnir
23. október - Deildarleikur í DHL-höllinni
KR vann leikinn 95-89 eftir framlengingu
28 stig, 8 fráköst, 2 stoðsendingar, 2 stolnir boltar
2. febrúar - Undanúrslitaleikur í bikar í DHL-höllinni
KR vann leikinn 88-80
12 stig, 3 stoðsendingar, 4 stolnir
Brynjar hefur ekki tapað á móti Stólunum í vetur
Óskar Ófeigur Jónsson skrifar

Mest lesið







Tinna Guðrún: Þetta er ógeðslega gaman
Körfubolti


Helena Ósk tryggði Valskonum sæti í undanúrslitunum
Íslenski boltinn
