Haukar eru án hornamannsins Einars Péturs Péturssonar í öðrum leiknum gegn Aftureldingu um Íslandsmeistaratitilinn í handbolta karla en Patrekur Jóhannesson, þjálfari Hauka, hefur kallað á reynsluboltann Frey Brynjarsson.
Einar Pétur fékk að líta rauða spjaldið undir lok fyrsta leiks liðanna í N1-höllinni í Mosfellsbæ í fyrrakvöld fyrir að brjóta á Erni Inga Bjarkasyni. Brot Einars flokkast sem gróf óíþróttamannsleg framkoma og því þarf hann að fylgjast með félögum sínum úr stúkunni þegar liðin mætast öðru sinni á Ásvöllum.
Einar Pétur skoraði fimm mörk úr sjö skotum í fyrsta leiknum og var því svo sannarlega betri en enginn í liði Hauka.
Freyr Brynjarsson er margfaldur Íslandsmeistari með Haukaliðinu en hann hefur ekkert spilað handbolta undanfarin tvö tímabil.
„Freyr kemur inn í þetta verkefni í dag. Hann er mikill Haukamaður og mikill keppnismaður. Villi verður númer eitt en það verður fínt að hafa Frey og hann mun hjálpa mikið í þessum leik," sagði Patrekur Jóhannesson í viðtali fyrir leikinn á Rúv.
Vilhjálmur Geir Hauksson mun því byrja leikinn og því óvíst hversu mikið Freyr spilar. Það er hægt að fylgjast með leiknum í beinni textalýsingu á Vísi.
