Þetta er í annað sinn sem Pavel er valinn besti leikmaður úrvalsdeildarinnar en hann fékk einnig þessi verðlaun 2011. Þá varð KR Íslands- og bikarmeistari en í ár tapaði liðið bikarúrslitaleiknum en varð hins vegar Íslandsmeistari annað árið í röð.
Pavel vildi samt ítreka mikilvægi liðsheildarinnar í KR-liðinu: „Ég veit ekki hvernig þeir völdu einhvern einn úr þessu liði. Þeir notuðu örugglega úllendúllendoff-aðferðina. Ég reiði mig mikið á liðsfélaga mína og sem betur fer er ég með góða samherja sem láta mig líta vel út.“

Sem kunnugt er meiddist Pavel í 4. leikhluta í bikarúrslitaleiknum gegn Stjörnunni en leikur KR hrundi eftir að hann fór út af. Hann vill ekki meina að tapið í úrslitaleiknum hafi hvatt KR-inga enn frekar til dáða í að landa Íslandsmeistaratitlinum.
„Ég myndi ekki segja það. Alls ekki. Þetta var ekkert spark í rassinn. Það var slæmt að tapa leiknum en við litum ekki svo á að við hefðum hent þessu frá okkur og allt væri hræðilegt. Þetta var einn leikur og því miður var hann mjög mikilvægur,“ sagði Pavel.
KR-ingar fóru erfiða leið í átt að Íslandsmeistaratitlinum. Í átta-liða úrslitunum slógu Vesturbæingar út sterkt lið Grindavíkur og í undanúrslitum biðu þeirra leikir við Njarðvík.
Sú sería var frábær og þá sér í lagi oddaleikur liðanna í DHL-höllinni þar sem KR hafði betur eftir tvær framlengingar, 102-94. Í úrslitarimmunni hafði KR svo betur gegn Tindastól, 3-1.
„Þetta var frábær úrslitakeppni og það var leiðinlegt að koma svona seint inn í þetta. Strákarnir stóðu sig frábærlega gegn Grindavík sem var mögulega erfiðasti andstæðingurinn sem við gátum fengið á þessu stigi,“ sagði Pavel sem missti nær algjörlega af Grindavíkurleikjunum og einnig fyrstu tveimur leikjunum gegn Njarðvík vegna meiðslanna sem hann varð fyrir í bikarúrslitaleiknum.

Þetta er þriðji Íslandsmeistaratitillinn sem Pavel vinnur með KR en hann segir erfitt að gera upp á milli þeirra.
„Það eru alltaf einhverjar sögur sem fylgja hverjum titli. Þetta var meiðslatitillinn,“ sagði Pavel sem fær ekki langt sumarfrí en framundan er stærsta verkefni í sögu íslenska landsliðsins, Evrópumótið í körfubolta sem Ísland tryggði sig inn á í fyrrasumar.
„Núna fer maður að einbeita sér að landsliðinu. Það eru margir um hituna og hörð barátta um sæti í hópnum,“ sagði Pavel Ermolinskij að lokum.