Enski boltinn

Sampdoria vill fá Mario Balotelli frá Liverpool

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Mario Balotelli hefur ekkert getað í vetur.
Mario Balotelli hefur ekkert getað í vetur. vísir/getty
Eftir skelfilega endurkomu í ensku úrvalsdeildina í fótbolta virðist alveg ljóst að Mario Balotelli verður ekki í herbúðum Liverpool á næstu leiktíð.

Ítalski framherjinn, sem spilaði með Manchester City á árum áður, hefur aðeins skorað eitt mark í 16 leikjum og verið svakalega gagnrýndur fyrir frammistöðu sína á tímabilinu.

Samkvæmt enska blaðinu Daily Mail hefur ítalska A-deildarliðið Sampdoria áhuga á að fá Balotelli frá Liverpool, en orð forseta félagsins á dögunum hafa vafalítið kveikt í þeim orðrómi.

Massimo Ferrero, forseti Sampdoria, er einn mesti vélbyssukjafturinn í evrópskum fótbolta, en hann er maðurinn sem sagði Rafael Benítez of feitan til að þjálfa lið sitt.

Ferrero sagði aftur á móti í viðtali við Gazetta TV á dögunum að kæmi Balotelli til Sampdoria myndi hann aftur fara að skora mörk.

„Hér myndi enginn rífast í honum ef hann myndi ekki skora. Hann hefði bara hægt um sig og væri ánægður,“ sagði Ferrero.

Hann kenndi lífstíl framherjans um markaþurrðina, en Balotelli finnst hann fá of há laun og kaupa sér of marga sportbíla.

„Við myndum bara gefa honum brauð, vatn og Bianchina-bíl frekar en Ferrari. Þá er ég viss um að hann fari að skora aftur,“ sagði Massimo Ferrero




Fleiri fréttir

Sjá meira


×