Fótbolti

Atalanta býður 164 milljónir og tvo leikmenn í Birki

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Birkir Bjarnason er eftirsóttur.
Birkir Bjarnason er eftirsóttur. vísir/getty
Birkir Bjarnason getur valið sér úr liðum til að spila fyrir á næstu leiktíð, en nokkur lið úr Seríu A á Ítalíu berjast nú um kappann.

Torino og Palermo hafa bæði haft samband við Pescara vegna Birkis og eru í viðræðum við félagið, en nú hefur þriðja ítalska félagið bæst við í baráttuna um íslenska landsliðsmanninn.

Sportitalia greinir frá því að Atalanta, sem var þremur stigum frá falli úr A-deildinni á síðustu leiktíð, sé búið að gera Pescara tilboð í Birki.

Atalanta er tilbúið að greiða 1,1 milljón evra eða því sem nemur 164 milljónum íslenskra króna fyrir Birki og býður tvo leikmenn með í kaupbæti. Ekki kemur fram hvaða leikmenn um er að ræða.

Forráðamenn Atlanta funda með Pescara í dag, en það virðist liggja nokkuð ljóst fyrir að Birkir er á leið frá félaginu og mun spila í efstu deildinni næsta vetur.

Enska B-deildarliðið Leeds er einnig sagt mjög áhugsamt um að fá Birki til sín, en hann skoraði tólf mörk í 42 leikjum með Pescara á síðustu leiktíð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×