Golden State Warriors tekur í nótt á móti Cleveland Cavaliers í úrslitakeppni NBA. Staðan í einvíginu er jöfn, 2-2, en Golden State hefur ekki verið sannfærandi á sínum heimavelli í þessu einvígi gegn Cleveland.
Fyrsta leikinn vann Golden State 108-100 í framlengingu og Cleveland hafði betur í 2. leik liðanna á heimavelli Golden State, 95-93, einnig eftir framlenginu.
Golden State vann hins vegar 39 af 41 heimaleik sínum í deildarkeppninni. Allt fram að tímabilinu 2013-2014 var fimmti leikur í úrslitaeinvígi leikinn á heimavelli liðsins sem hafði lakari árangur í deildinni en því var breytt fyrir tveimur árum síðan.
"Ég býst við að við verðum mjög samheldnir og grimmir. Við ætlum að nýta okkur stuðninginn, við þurfum á því að halda og þess vegna leggur þú svona mikið á þig í deildinni yfir veturinn, til að fá heimaleikjaréttinn og nýta sér hann á svona stundum," segir Stephen Curry, leikmaður Golden State.
Það lið sem hefur unnið leik 5 þegar staðan er 2-2 í úrslitaeinvígi hefur unnið titilinn 20 sinnum af 28 skiptum sem þessi staða hefur komið upp.
"Ég gæti trúað að þetta verði vendipunktur í einvíginu, að vinna leik 5. Það tel ég vera nokkuð augljóst í þessari stöðu þar sem staðan er 2-2. En við hefum ekki miklar áhyggjur af úrslitunum ef spilum eins og við gerðum í leik 4," segir David Lee, framherji Golden State.
