Körfubolti

Annar sigur Cleveland í röð | Myndbönd

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
James hefur verið magnaður í úrslitaeinvíginu.
James hefur verið magnaður í úrslitaeinvíginu. vísir/getty
Cleveland Cavaliers er komið í 2-1 í einvíginu gegn Golden State Warriors eftir fimm stiga sigur, 96-91, í þriðja leik liðanna í úrslitum NBA-deildarinnar í nótt.

LeBron James átti enn einn stórleikinn í liði Cleveland en hann skoraði 40 stig, tók 12 fráköst, gaf átta stoðsendingar og stal boltanum fjórum sinnum.

Cleveland var allan tímann yfir í leiknum í nótt og náðu mest 20 stiga forystu í 3. leikhluta.

Stephen Curry hitnaði svo um munaði í 4. leikhluta þar sem hann skoraði 17 stig. Curry minnkaði muninn í þrjú stig, 94-91, þegar tæpar 19 sekúndur voru eftir en nær komust stríðsmennirnir ekki.

Liðin mætast í fjórða sinn aðfaranótt föstudags en ljóst er að Cleveland kemst í ansi vænlega stöðu með sigri. Fáir áttu von á miklu frá Cleveland eftir að leikstjórnandinn Kyrie Irving meiddist í fyrsta leiknum gegn Golden State en leikmenn Cleveland hafa blásið á allar hrakspár.

Matthew Dellavedova, sem hefur spilað stærri rullu í fjarveru Irvings, var með 20 stig í liði Cleveland í nótt og þeir J.R. Smith og Tristan Thompson gerðu 10 stig hvor. Sá síðarnefndi tók einnig 13 fráköst.

Curry, sem hitti mun betur í nótt en í öðrum leiknum, var stigahæstur í liði Golden State með 27 stig en Andre Iguodala kom næstur með 15 stig.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×