Harold er 24 ára gamall og nýútskrifaður úr Vermont-háskólanum sem er 1. deildar skóli í America East deildinni. Hann var með 8,1 stig og 3,9 fráköst að meðaltali í leik á síðasta tímabili.
Harold er 2,01m á hæð og mun spila stöðu miðherja hjá Grindavík en hann spilaði sem framherji í háskóla.
Hann er sagður fjölhæfur leikmaður með góða boltatækni og sterkur í vörninni. Harold kemur til landsins í ágúst.
Þá er Páll Axel Vilbergsson kominn aftur til Grindavíkur en hann hefur leikið með Skallagrími í Borgarnesi undanfarin tvö tímabil.
Páll Axel, sem er 37 ára, er stórt nafn í sögu Grindavíkur en hann varð tvisvar sinnum Íslandsmeistari með liðinu á sínum tíma (1996 og 2012).
Páll Axel var með 14,2 stig og 5,7 fráköst að meðaltali í leik með Skallagrími á síðasta tímabili en hann setti niður 40,0% af þriggja stiga skotum sínum í vetur. Páll Axel er ein besta skytta sem Ísland hefur átt en hann er eini leikmaðurinn í sögu úrvalsdeildarinnar sem hefur sett niður 1000 þrista.
Grindavík hafnaði í 8. sæti Domino's deildarinnar á síðasta tímabili en liðið tapaði 3-0 fyrir KR í fyrstu umferð úrslitakeppninnar.
